Fjögur mörk af vítapunktinum á Grýluvelli

Markaskorarinn Rodrigo Depetris sækir að marki Tindastóls í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tók á móti Tindastól í bráðfjörugum leik í 4. deild karla í knattspyrnu í dag. Dramatíkin var mikil en Hamar jafnaði í uppbótartímanum, 3-3.

Hvergerðingar voru fyrri til að skora en Máni Snær Benediktsson kom þeim yfir á 13. mínútu. Tindastóll fékk vítaspyrnu á 40. mínútu og jafnaði úr henni en tveimur mínútum síðar féll Máni Snær inni í vítateig Stólanna og önnur vítaspyrna dæmd. Guido Rancez fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Staðan var 2-1 í hálfleik og fjörið hélt áfram í seinni hálfleiknum þar sem gulu spjöldunum var útdeilt eins og biblíumyndum í hvítasunnumessu.

Tindastóll jafnaði metin á 73. mínútu og þeir fengu síðan dæmda vítaspyrnu mínútu fyrir leikslok og komust yfir úr henni, 2-3. Uppbótartíminn var langur og dugði Hvergerðingum til þess að jafna. Á fimmtu mínútu uppbótartímans fékk Hamar fjórðu vítaspyrnu leiksins þegar brotið var á Rancez innan teigs og úr spyrnunni skoraði Rodrigo Depetris. Hann tryggði Hamri þar með eitt stig úr 3-3 jafntefli.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 7 stig en Tindastóll í 3. sæti með 4 stig og á leik til góða.

Fyrri greinKFR sigraði í Suðurlandsslagnum
Næsta greinÚtskrifuðust úr starfstengdu íslenskunámi