Fjögur HSK met á Selfossleikunum

Methafarnir (f.v.) Eydís Arna, Álfrún Diljá og Bryndís Embla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjögur HSK met féllu á Selfossleikunum í frjálsum íþróttum sem haldnir voru 22. og 27. júlí á frjálsíþróttavellinum á Selfossi.

Eydís Arna Birgisdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í 400 m hlaupi á tímanum 62,42 sek og bætti hún þar átta ára gamalt héraðsmet í flokki 13 ára stúlkna. Gamla metið átti frænka hennar, Harpa Svansdóttir, Umf. Selfoss, en Eydís bætti metið um 2,28 sekúndur.

Tvö met féllu í sleggjukasti en Álfrún Diljá Kristínardóttir, Umf. Selfoss, sigraði í sleggjukasti 14 ára stúlkna og bætti eigið héraðsmet í aldursflokknum þegar hún kastaði 34,73 m, sem er bæting um 2,36 m.

Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í sleggjukasti 11 ára stúlkna og bætti héraðsmet Álfrúnar Diljár í þeim flokki um 1,77 metra, en Bryndís Embla kastaði 22,71 m.

Þá bætti Gunnar Erik Cevers, Umf. Selfoss, sjö ára gamalt met Viktors Karls Halldórssonar, Þór Þ., í 400 m hlaupi í flokki 11 ára pilta um 0,18 sekúndur en Gunnar Erik hljóp á 74,47 sek.

Rúmlega 30 keppendur frá Umf. Selfoss og Umf. Hrunamanna kepptu á Selfossleikunum við ágætar aðstæður báða dagana og litu fjölmargar bætingar dagsins ljós.

Gunnar Erik Cevers (í miðið) setti HSK met í 400 m hlaupi 11 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Hluti keppenda á Selfossleikunum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinEinn Íslandsmeistaratitill á Selfoss
Næsta greinAusturvegur lokaður til vesturs