Fimm héraðsmet slegin um helgina

Helga Fjóla Erlendsdóttir. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson

Fimm HSK met voru slegin á Stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum sem haldið var í Laugardalshöllinni um helgina.

Helga Fjóla Erlendsdóttir, Garpi/Heklu, sigraði í fimmtarþraut 12 ára stúlkna með 3.953 stig og bætti tveggja ára gamalt met Ísoldar Össu Guðmundsdóttur, Umf. Selfoss, um 143 stig. Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, varð í 2. sæti í fimmtarþrautinni í þessum flokki með 3.913 stig, sem er einnig yfir gamla HSK metinu. Bryndís Embla setti meðal annars mótsmet í hástökki þegar hún stökk 1,48 m.

Adda Sóley Sæland, Umf. Selfoss, setti sömuleiðis HSK met í fimmtarþraut 11 ára stúlkna en hún hlaut 3.305 stig og varð í 7. sæti í þrautinni. Adda Sóley bætti ársgamalt met Bryndísar Emblu um 229 stig.

Eydís Arna Birgisdóttir, Umf. Selfoss, bætti HSK metið í 300 m hlaupi í flokki 14 ára stúlkna. Eydís Arna hljóp á 44,66 sek og varð í 3. sæti og bætti fjögurra ára gamalt met Birtu Sigurborgar Úlfarsdóttur, Íþrf. Dímon, um 2,08 sek.

Tvö met féllu í 1.500 m hlaupi karla, þar sem Goði Gnýr Guðjónsson, Garpi/Heklu, varð í 6. sæti og Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, í 7. sæti. Goði Gnýr hljóp á 4:40,31 mín og og bætti fjögurra ára gamalt met Dags Fannars Einarssonar, Umf. Selfoss, í flokki 16-17 ára pilta um 1,99 sek. Þorvaldur Gauti hljóp á 4:48,49 mín og bætti þriggja ára gamalt met Goða Gnýs í flokki 14 ára pilta um 2,61 sek.

Annars rökuðu sunnlensku keppendurnir inn verðlaunum á mótinu og komust alls 57 sinnum á verðlaunapall.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, var öflugur, hann sigraði í 200 m hlaupi, 600 m hlaupi, hástökki og kúluvarpi í flokki 13 ára pilta og hlaut að auki silfur í langstökki og brons í 60 m hlaupi.

Veigar Þór Víðisson, Garpi/Heklu, var sömuleiðis fastagestur á verðlaunapallinum. Hann sigraði í hástökki, langstökki og kúluvarpi í flokki 15 ára pilta, hlaut silfur í þrístökki og brons í 60 m hlaupi og 60 m grindahlaupi.

UPPFÆRT KL. 11:33

Goði Gnýr Guðjónsson, lengst til vinstri. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson
Bræðurnir frá Kastalabrekku. Veigar Þór vann til sjö verðlauna á mótinu og Vikar Reyr vann gull í stangarstökki og silfur í 600 m hlaupi. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson
Fyrri greinSigtún þróunarfélag býður Árborg að leigja bílastæðahús í miðbænum
Næsta greinHestamaður fékk þungt höfuðhögg