Fjögur gull á fyrri degi

Keppendur HSK/Selfoss unnu til fjögurra gullverðlauna á fyrri degi Meistaramóts Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum í dag.

Fjóla Signý Hannesdóttir sigraði í 400 m grindahlaupi ungkvenna 19-22 ára á 65,36 sek. Þá vann hún silfurverðlaun í langstökki með stökk upp á 5,49 m.

Hreinn Heiðar Jóhannsson sigraði í langstökki 17-18 ára drengja, stökk 6,40 m. Í sama aldursflokki sigraði Dagur Fannar Magnússon í sleggjukasti þegar hann kastaði 47,98 m.

Í sveinaflokki 15-16 ára sigraði Jóhann Erlingsson í kringlukasti, kastaði 44,95 m. Hann tryggði sér síðan silfur í sleggjukasti með kast upp á 34,24 m.

Í kringlukasti 19-22 ára ungkvenna varð Eyrún Halla Haraldsdóttir önnur og Anna Pálsdóttir þriðja. Eyrún kastaði 32,51 m og Anna 31,15 m.

Sveit HSK/Selfoss varð í 2. sæti í 4×100 m boðhlaupi 19-22 ára ungkvenna.

Þórhildur Helga Guðjónsdóttir vann til bronsverðlauna í 100 m hlaupi 17-18 ára stúlkna, hljóp á 12,67 sek og Theodóra Jóna Guðnadóttir hlaut brons í stangarstökki 15-16 ára meyja með stökk upp á 2,20 m.

Mótið fer fram á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði og lýkur á morgun.

Fyrri greinHamar tapaði í sjö marka leik
Næsta grein„Loksins, loksins er þetta hægt“