Fjögur félög hefja samstarf í Akademíu FSu

Í gær undirrituðu fulltrúar Körfuknattleiksfélags Selfoss og körfuknattleiksdeilda Umf. Þórs, Umf. Hrunamanna og Íþróttafélagsins Hamars samning um samstarf félaganna í Körfuboltaakademíu FSu um rekstur drengja- og stúlknaflokks.

Félögin munu senda sameiginleg lið í þessum aldursflokkum til keppni undir nafni FSu-Akademíu.

Í samningnum segir að meginmarkmiðin með samstarfinu séu að bjóða upp á alhliða afreksþjálfun í körfubolta eins og best gerist og veita efnilegum unglingum og verðandi afreksfólki á Suðurlandi tækifæri til að keppa við jafnaldra sína á hæsta getustigi hér á landi og, síðast en ekki síst, að beina sjónum sérstaklega að því að gefa stúlkum aukin tækifæri til að stunda körfuknattleik við metnaðarfullar aðstæður.

Akademían verður tvískipt og strákum og stelpum þannig gefin sömu tækifæri við bestu aðstæður.

Samningurinn er til þriggja ára en að loknu reynslutímabili vonast félögin til að um framtíðarskipan mála verði að ræða, sem muni efla fagmennsku og lyfta undir allt starf félaganna, börnum og unglingum á svæðinu til hagsbóta.

Fyrri greinNeðri stígur við Gullfoss opnaður á ný
Næsta greinÞjórsá – listamannsspjall