„Finnst að áhorfendurnir ættu að fá verðlaun“

Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK, varð landsmótsmeistari í hástökki kvenna og vann silfurverðlaun í 100 m grindahlaupi í dag. Hún var mjög ánægð með daginn.

„Það var frekar leiðinlegt veður og ekki við miklu að búast og þá setur maður kannski minni pressu á sjálfan sig og allt smellur. Ég var við það að bæta mig í báðum greinum og miðað við aðstæðurnar hér í dag þá er það rosalega góður árangur,“ sagði Fjóla í samtali við sunnlenska.is.

Hún hljóp 100 m grindahlaupið á 14,43 sek og var 0,02 sekúndum frá sínum besta tíma og 0,01 sekúndu á eftir Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur, ÍBR, sem sigraði í greininni. „Þetta var annað hraðasta hlaupið mitt á ferlinum og líka í annað skiptið sem ég fer undir 14,50 sekúndur. Þannig að þetta var flottur árangur miðað við aðstæðurnar en það var grenjandi rigning og hífandi rok. Mig óraði ekki fyrir að ég næði þessum tíma í þessu veðri. Ég var að hlaupa á Madeira um síðustu helgi við toppaðstæður en hljóp þá mun hægar. En ég er í góðu formi og það er gaman að vera á heimavelli og það skilar sér.“

Í hástökkinu dugði Fjólu að fara yfir 1,64 m til að sigra en hún lét þá hækka rána í 1,70 m sem er einum sentimetra hærra en hún á best utanhúss. „Í fyrsta stökkinu fór ég í fyrsta skipti úr síðbuxunum og bolnum og stökk í keppnisbúningnum. Þá var ég hátt yfir en var óheppin og rak hælinn í. Þegar ég var komin úr gallanum varð mér strax kalt þannig að næstu tvær tilraunir voru ekki góðar. En ég var hársbreidd frá því að bæta mig þannig að það er bara frábært.“

Á morgun keppir Fjóla til úrslita í 400 m grindahlaupi og 200 m hlaupi og svo 400 m sprett í 1.000 m boðhlaupi. „Markmiðið að vinna grindina og hlaupa mitt hlaup. Það er stutt á milli hlaupa hjá mér á morgun þannig að þetta verður erfitt. Ég er vön að hlaupa mikið en álagið mun eflaust bitna á tímanum,“ segir Fjóla og bætir við að stemmningin á íþróttavellinum sé góð.

„Stemmningin er mjög góð þó að það séu fáir í stúkunni. Þar kemur tvennt til, það eru margir að starfa við mótið og svo er ekki nógu gott veður. Mér finnst að áhorfendurnir ættu að fá einhver verðlaun, það er frábært að finna stuðninginn frá þeim sem láta sjá sig. Það munar svo mikið um eitt klapp og eitt „áfram“ úr stúkunni,“ sagði Fjóla Signý að lokum.

Fyrri greinSelfyssingar sigruðu á Partille Cup
Næsta greinTveir gómaðir úr þyrlu