Fínn lokasprettur hjá FSu

FSu sigraði Þór Akureyri í hörkuleik á útivelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 66-69.

Sunnlendingar voru vankaðir í byrjun og Þórsarar komust í 15-2. Þá komu loksins stig frá FSu sem minnkaði muninn í 29-19 undir lok 1. leikhluta. Þórsarar höfðu frumkvæðið framan af 2. leikhluta og komust í 41-28 en þá skoraði FSu tíu stig í röð og breytti stöðunni í 41-38. Staðan var 46-40 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var kaflaskiptur, Þórsarar byrjuðu betur og komust í 54-44 en þá skellti FSu í lás, náði 13-2 leikkafla og minnkaði muninn í eitt stig fyrir lok leikhlutans, 56-55.

Liðunum gekk ekkert að skora í upphafi síðasta fjórðungsins en þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum komst FSu yfir í fyrsta skipti, 60-61. Eftir það var ekki litið til baka en Þór minnkaði muninn í 66-67 þegar tólf sekúndur voru eftir. Orri Jónsson fór á vítalínuna í næstu sókn FSu og skoraði úr báðum vítum sínum til að tryggja sigurinn endanlega.

Steven Crawford átti stórleik fyrir FSu með 29 stig og 17 fráköst. Orri Jónsson kom næstur honum með 14 stig.

FSu lauk keppni í 8. sæti deildarinnar en jafnaði Þór að stigum með sigrinum í kvöld. Þórsarar hafa betur innbyrðis og ljúka því vetrinum í 7. sæti.