Fínir kaflar dugðu ekki

Kvennalið Selfoss í handbolta sýndi fína takta á köflum þegar liðið tapaði 25-32 fyrir Stjörnunni í N1-deildinni á Selfossi í dag.

Stjarnan náði tveggja marka forskoti í upphafi leiks en Selfoss jafnaði leikinn, 5-5. Stjarnan skoraði næstu fjögur mörk en Selfosskonur komu aftur til baka og náðu að minnka muninn í 9-11. Þá komu þrjú mörk í röð frá gestunum en Selfoss skoraði síðasta markið í fyrri hálfleik og staðan var 10-14 í leikhléinu.

Selfoss var ekki inni í leiknum á upphafsmínútum síðari hálfleiks en Stjarnan skoraði fimm fyrstu mörkin og breytti stöðunni í 10-19. Eftir það voru Selfyssingar sterkari og létu þessa góðu byrjun Stjörnunnar ekki slá sig út af laginu.

Selfoss náði að minnka forskot Stjörnunnar niður í fimm mörk, 23-28 en skotnýting liðsins var hins vegar ekki góð í kjölfarið og Stjörnukonur gáfu aftur í og sigruðu að lokum, 25-32.

Carmen Palamariu var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 5/2 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir og Tinna Soffía Traustadóttir skoruðu báðar 4 mörk, Hildur Öder Einarsdóttir 3, Kara Rún Árnadóttir 2 og Þuríður Guðjónsdóttir 1.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 11 skot og var með 30,5% markvörslu og Ásdís Björg Ingvarsdóttir varði 1 skot og var með 12,5% markvörslu.

Selfoss er áfram í 9. sæti með 4 stig en Stjarnan er í 6. sæti með 10 stig.