Fimmti sigur Selfoss í röð

Gonzalo Zamorano. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir fimm umferðir sitja Selfyssingar í toppsæti Lengjudeildar karla í knattspyrnu með 13 stig. Selfyssingar unnu magnaðan útisigur á Þór Akureyri í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af og bæði lið áttu álitlegar sóknir. Gonzalo Zamorano fékk fínt færi á 29. mínútu tíu mínútum síðar braut hann loksins ísinn eftir klafs í vítateig Þórsara.

Staðan var 0-1 í hálfleik og Þórsarar stýrðu umferðinni í upphafi seinni hálfleiks. Það var því ansi blaut tuska sem þeir fengu í andlitið á 60. mínútu þegar Hrvoje Tokic kom Selfyssingum í 0-2 með góðu skallamarki eftir sendingu frá Aroni Darra Auðunssyni.

Þórsarar reyndu allt hvað af tók að minnka muninn en Selfossvörnin og Stefán Þór Ágústsson markvörður voru með allt á hreinu og héldu hreinu til leiksloka. Lokatölur 0-2 og fimmti sigur Selfoss í röð staðreynd.

Fyrri greinVildu gefa vörunum það pláss sem þær eiga skilið
Næsta greinAnnar sigur Árborgar í höfn