Fimmta tapið á heimavelli í sumar

Tiffany McCarty skoraði mark Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu tapaði enn einum heimaleiknum í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í dag þegar Þróttur R. kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og Unnur Dóra Bergsdóttir fékk gott færi á 15. mínútu en markvörður Þróttar varði skalla frá henni. Selfoss hafði ekki mikið meira fram að færa í fyrri hálfleik því Þróttur tók leikinn yfir og skoraði þrjú mörk á síðustu tuttugu mínútum fyrri hálfleiks. 

Staðan var 0-3 í hálfleik en Selfossliðið kom sterkara inn í seinni hálfleikinn en gekk illa að skora. Tvívegis fór boltinn í rammann á marki Þróttar áður en Tiffany McCarty náði að minnka muninn á 65. mínútu. Annað mark til viðbótar frá Selfyssingum hefði hleypt leiknum upp, en það kom aldrei og Þróttur fagnaði 1-3 sigri.

Þetta er fimmta tap Selfyssinga á heimavelli í sumar en liðið er í 4. sæti deildarinnar með 19 stig en Þróttur lyfti sér upp í 7. sætið með 15 stig.

Fyrri greinÞórsarar sigruðu á Icelandic Glacial mótinu
Næsta greinKrefst þess að ríkisstjórnin dreifi byrðunum