Fimmta tap Þórs í röð

Þór Þorlákshöfn tapaði fimmta leik sínum í röð í Domino’s-deild karla í körfubolta þegar Skallagrímur kom í heimsókn í Höfnina í kvöld.

Leikurinn var jafn allan tímann, gestirnir voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 34-39. Munurinn jókst í tíu stig í 3. leikhluta, 51-61, en Þór náði að minnka muninn í fimm stig í fyrstu sókn 4. leikhluta, 58-63.

Um miðjan 4. leikhluta tóku Þórsarar 11-0 rispu og komust í 73-68 en gestirnir voru sterkari á lokasprettinum. Þórsarar áttu síðustu sókn leiksins en mistókst að skora úr þriggja stiga skoti og lokatölur urðu 74-76.

Taphrina Þórsara hefur leitt til þess að þeir eru nú í þéttum pakka liða í 7.-11. sæti sem öll hafa 8 stig. Snæfellingar eru þar fyrir neðan í 12. sæti án stiga.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 33 stig/15 fráköst, Maciej Baginski 14 stig, Halldór Hermannsson 10 stig, Ólafur Jónsson 8 stig, Emil Einarsson 4 stig, Grétar Ingi Erlendsson 3 stig, Davíð Arnar Ágústsson 2 stig, Ragnar Örn Bragason 7 fráköst.