Fimm verðlaun á Selfoss

Keppendur frá júdódeild Umf. Selfoss komu heim með tvenn silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun af fyrsta hluta Íslandsmeistaramótsins í júdó um helgina.

Það voru aldurshóparnir 15–16 ára og 15-19 ára sem kepptu bæði í einstaklingskeppni og sveitakeppni.

Arnar Bjarki Sigurðsson keppti í -81 kg í aldurshópnum 15-19 ára, Arnar sem byrjaði að æfa seint í haust hefur sýnt miklar framfarir á stuttum tíma. Þetta ver hans fyrsta stóra mót og má segja að hann hafi staðið sig vel á móti mun reyndari júdómönnum en hann skilaði sér í bronssæti, en einungis muna hársbreidd að silfursætið væri hans.

Í aldurshópnum 15-16 ára mættu sex keppendur frá Selfossi. Allir eru þeir á yngra árinu og því á brattan að sækja.

Stefán Herbert náði öðru sæti í -55 kg flokki. Hinrik Hjartarson, -66kg, er orðinn nokkuð reyndur keppnismaður, en er ný stigin upp úr veikindum sem tók sinn toll, engu að síður kom hann heim með brons. Einar Knútsson, -73 kg, var að keppa á sínu fyrsta móti og stóð vel í þyngri og mun reyndari andstæðingum.
Anton Þór Ólafsson keppti í -81 kg flokki en þessi flokkur var fjölmennasti og sterkasti flokkurinn í keppninni og þar af leiðandi var keppt með útsláttarfyrirkomulagi. Anton vann eina glímu og lenti í 5 sæti.

Egill Blöndal keppti einnig í þessum flokki. Fyrstu glímuna vann hann eftir mjög jafna og tvísýna keppni, annarri viðureigninni tapaði Egill fyrir sigurvegaranum í þessum flokki, þar af leiðandi fékk hann uppreisnarglímu sem hann vann og skilaði honum í 3. sætið. Þórdís Böðvarsdóttir keppti náði silfri eftir harða baráttu við Ingunni Sigurðardóttir um fyrsta sætið.

Í sveitakeppni 15-16 ára voru mættar fimm sveitir, ein sveit frá júdódeild Selfoss þar á meðal. Keppni hefur sjaldan verið eins jöfn og spennandi. JR var í fyrsta sæti með 3 vinninga, þar á eftir komu þrjár sveitir með 2 vinninga. Í slíkum tilfellum telja einstaklingsvinningar sem skilaði Slfyssingum í 4. sætið.

Þess ber þó að geta að þarna voru oft á tíðum viðureignir sömu aðila og á Íslandsmótinu sem fram fór fyrr um morgunninn og í flestum tilfellum var okkar mönnum að ganga mun betur þarna, til dæmis vann Egill Blöndal bæði ný krýnda silfur og gullhafa í sínum flokki.