Fimm Sunnlendingar íþróttamenn sinna sérsambanda

Sunnlendingar áttu í það minnsta fimm fulltrúa þegar Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands veitti íþróttafólki sérsambandanna viðurkenningar í Silfurbergi í Hörpu í síðustu viku.

Þorsteinn Helgi Sigurðarson frá Þorlákshöfn var útnefndur hnefaleikamaður ársins. Þorsteinn Helgi er 19 ára og er nýr í íþróttinni. Þorsteinn hefur æft í aðeins eitt ár og keppt átta sinnum á árinu. Hann er virkasti hnefaleikamaður ársins 2016 í ólympískum hnefaleikum og hefur farið gífurlega fram með hverjum bardaganum.

Árni Björn Pálsson á Oddhóli í Rangárþingi ytra var útnefndur knapi ársins. Árni Björn var tilnefndur til verðlauna í flokkunum Íþróttaknapi ársins, Skeiðknapi ársins, Kynbótaknapi ársins og Knapi ársins á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember sl. en hann er jafnvígur í öllum greinum hestamennskunnar. Árni Björn varð Íslandsmeistari í tölti 2016 á stólpagæðingnum Stormi frá Herríðarhóli.

Hann stóð uppi sem sigurvegari í Meistaradeildinni í hestaíþróttum árið 2016 en þar sigraði hann í gæðingafimi, slaktaumatölti, fimmgangi og tölti. Hann sigraði 150m skeiðið á Landmótinu á Hólum á besta tíma ársins í þeirri grein; 13,86 sek. á hryssunni Korku frá Steinnesi. Hann á einnig þriðja besta tímann í 250m skeiði í ár á hestinum Dalvari frá Horni.

Marín Laufey Davíðsdóttir frá Selfossi var útnefnd glímukona ársins. Helsta afrek hennar var þegar hún sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Freyjumenið í fjórða sinn. Marín keppti einnig á fjölmörgum alþjóðlegum mótum í keltneskum fangbrögðum þar sem hún var ávallt í verðlaunasæti og varð meðal annars Evrópumeistari í backhold.

Gyða Dögg Heiðarsdóttir frá Þorlákshöfn var útnefnd mótorhjóla- og snjósleðakona ársins. Gyða Dögg er Íslandsmeistari kvenna í motocrossi 2016 annað árið í röð eftir gríðarlega baráttu við sína helstu keppinauta. Hún hefur æft af kappi undanfarin ár og tekið miklum framförum í sinni grein.

Hafsteinn Valdimarsson frá Hveragerði var útnefndur blakmaður ársins. Hafsteinn lék á árinu með Marienlyst í Odense í Danmörku en gekk svo í raðir Waldviertel Raffaissen sem er í toppbaráttunni í austurrísku deildinni, auk þess að vera í Evrópukeppni. Hafsteinn varð danskur bikarmeistari með Marienlyst og var valinn í lið ársins í Danmörku. Hann er einn af burðarásum karlalandsliðs Íslands og varð á árinu• Íslandsmeistari í strandblaki með Kristjáni bróður sínum.