Fimm Selfyssingar í leikmannahópi Íslands

Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason. Ljósmynd/HSÍ

Fimm Selfyssingar eru í tuttugu manna leikmannahópi íslenska landsliðsins í handbolta sem tekur þá í Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi í janúar.

Þetta eru þeir Bjarki Már Elísson, Lemgo, Elvar Örn Jónsson, Melsungen, Janus Daði Smárason, Göppingen, Teitur Örn Einarsson, Flensburg og Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg. Eins og sjá má leika þeir allir í þýsku úrvalsdeildinni. Haukur Þrastarson, leikmaður Kielce í Póllandi, er ekki í hópnum en hann hefur glímt við meiðsli að undanförnu.

Bjarki Már er leikreyndastur Selfyssinganna, hefur leikið 82 A-landsleiki og skorað í þeim 230 mörk. Ómar Ingi hefur leikið 56 landsleiki og skorað í þeim 150 mörk, Janus Daði er með 49 landsleiki og 69 mörk, Elvar Örn með 46 landsleiki og 120 mörk og Teitur Örn á að baki 21 landsleik og hefur skorað í þeim 22 mörk.

Spennandi riðill í Ungverjalandi
Íslenska landsliðið kemur saman til æfinga hér heima 2. janúar og leikur tvo vináttulandsleiki við Litháen á Ásvöllum í Hafnarfirði 7. og 9. janúar.

Strákarnir okkar halda til Búdapest 11. janúar þar sem liðið leikur í B-riðli ásamt Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil en hann fer einnig fram í Búdapest.

Fyrri greinEinar Karl skipaður dómari
Næsta greinHermann ráðinn skólastjóri Sunnulækjarskóla