Fimm lykilmenn framlengja um þrjú ár

Fimm lykilmenn hjá karlaliði Selfoss í knattspyrnu hafa framlengt samninga sína við félagið um þrjú ár. Allir eru þeir heimamenn og voru í stórum hlutverkum hjá Selfossliðinu í sumar þrátt fyrir ungan aldur.

Þetta eru þeir Svavar Berg Jóhannsson, Haukur Ingi Gunnarsson, Sindri Pálmason, Arnar Logi Sveinsson og Richard Sæþór Sigurðsson. Þeir eru allir í kringum tvítugt; Svavar, Haukur, Arnar Logi og Sindri eru miðvallarleikmenn en Richard sóknarmaður.

Adólf Ingvi Bragason, formaður knattspyrnudeildarinnar, segir að þetta séu frábærar fréttir fyrir félagið.

„Við viljum senda út mjög skýr skilaboð um að við höfum trú á okkar fólki og viljum gefa því tækifæri til að vaxa og dafna í Selfossbúningnum. Það er síðan í höndum þessara drengja að grípa tækifærið þegar það gefst og láta verkin tala inni á vellinum. Það eru spennandi tímar framundan á Selfossi og það verður gaman að fylgjast með þessum drengjum á JÁVERK-vellinum í framtíðinni,“ segir Adólf.

Fyrri greinMeira en þrjátíu starfsmönnum Frostfisks sagt upp
Næsta greinStormur í vændum