Fimm leikmenn framlengdu við Selfoss

Fimm leikmenn skrifuðu undir áframhaldandi samninga við handknattleiksdeild Umf. Selfoss í gærkvöldi.

Þetta eru þeir Andri Már Sveinsson og Örn Þrastarson sem báðir eru að stíga upp eftir meiðsli. Öflugir leikmenn sem hafa unnið markvisst í að byggja sig upp eftir krossbandaslit og mæta því sterkir til leiks í haust.

Árni Felix Gíslason skrifaði undir samning til tveggja ára en hann mun einnig spila með 2. flokki Selfoss. Sverrir Andrésson skrifaði undir nýjan samning en hann hefur verið annar aðal markvörður meistaraflokks karla undanfarin ár.

Þá mun Einar Sverrisson spila áfram með félaginu á næsta tímabili þrátt fyrir mörg tilboð liða í efstu deild. Einar var lang markahæsti leikmaður Selfoss síðasta tímabil og spilaði lykilhlutverk í leik liðsins.

Þorsteinn Rúnar Ásgeirsson, formaður deildarinnar, segir að allir þessir leikmenn séu gríðarlega mikilvægir fyrir liðið og eiga eftir að spila stórt hlutverk næsta tímabil. „Við í stjórninni og Gunnar þjálfari erum mjög ánægð með að hafa þessa leikmenn innan okkar raða en væntanlega munu fleiri sterkir Selfyssingar skrifa undir samninga eftir helgi,“ sagði Þorsteinn í samtali við sunnlenska.is. Þá er félagið í viðræðum við fleiri leikmenn sem styrkja munu liðið enn frekar.

Fyrri grein„Var stundum einum of mikið hérna“
Næsta greinIngó tekur við brekkusöngnum