Fimm Íslandsmet í frjálsum íþróttum voru sett í Selfosshöllinni á Stökkmóti öldunga sem haldið var fyrr í mánuðinum.
Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, tvíbætti Íslandsmetið í hástökki án atrennu í flokki 35-39 ára. Fyrra metið átti Bryndís Eva Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, og var það 1,15 sm. Fjóla Signý byrjaði á að bæta það um einn sentimetra en gerði sér svo lítið fyrir og stökk yfir 1,20 m.
Þá þríbætti Árný Heiðarsdóttir, Umf. Selfoss, Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss í flokki 70-74 ára. Árný kastaði fyrst 7,48 m en bætti sig svo jafnt og þétt, kastaði 7,90 m og lauk svo seríunni á því að kasta 8,28 m.

