Sindratorfæran á Hellu fer fram á morgun, laugardaginn 3. maí, á milli kl. 10 og 16. Alls eru 29 keppendur skráðir til leiks í tveimur flokkum.
Nokkrir nýliðar mæta til leiks, aðrir hafa verið með í áraraðir og enn aðrir eru að koma til baka eftir mislangt hlé. Á meðal keppenda er Íslandmeistarinn Ingvar Jóhannesson auk fimm annarra eldri Íslandsmeistara. Af öðrum ólöstuðum má þar nefna þá Gísla Gunnar Jónsson, Snorra Þór Árnason og Þór Þormar Pálsson.
Aðeins sex sinnum áður í sögu Hellutorfærunnar hafa keppendur verið fleiri en á morgun og má segja að rúmlega helmingur þeirra teljist sigurstranglegur. Spennan er því mikil fyrir morgundeginum og ljóst að margir ætla sér að koma sterkir undan vetri.
Það eru Flugbjörgunarsveitin á Hellu og akstursíþróttanefnd Umf. Heklu sem standa að keppninni, sem hefur verið haldin nær óslitið síðan 1973. Keppnissvæðið er í Tröllkonugili rétt austan Hellu en þar er kjöraðstaða fyrir áhorfendur að tylla sér í brekkurnar og fylgjast með þessum 1.000 hestafla græjum reyna fyrir sér í sandbrekkum, börðum, fleytingum á ánni og í mýrinni.
Torfæra er skemmtun fyrir alla fjölskylduna síðustu ár hafa um 5.000 þúsund manns verið á svæðinu og allir haft gaman að því að skoða græjurnar og sjá þær svo takast á við brautirnar.
Bein útsending verður frá keppninni á Youtube og RÚV 2 fyrir þá sem ekki komast á staðinn. Allar upplýsingar um keppnina má finna á Facebook.

