Fimm hlaupamet féllu í dag

Fimm héraðsmet í fullorðinsflokkum féllu í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands innanhúss í Laugardalshöllinni í dag.

Agnes Erlingsdóttir setti HSK met þegar hún varð önnur í 800 metra hlaupi. Agnes hljóp á 2:17,45 mín og bætti sitt eigið met um rúmlega hálfa sekúndu.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir varð 2. í 200 metra hlaupi og bætti HSK met kvenna um leið. Sólveig hljóp á 26,53 sek og bætti met Fjólu Signýjar Hannesdóttur um 0,12 sekúndur. Sólveig Helga er 14 ára gömul og árangurinn er því met í kvenna-, ungkvenna-, stúlkna- og meyjaflokki.

Fjóla Signý varð síðan þriðja í 400 metra hlaupi á nýju HSK meti, 58,35 sek. Fjóla bætti þar eigið met um rúma sekúndu.

Kristinn Þór Kristinsson var ekki eftirbátur þeirra Sólveigar, Fjólu og Agnesar því hann bætti sitt eigið HSK met í 800 metra hlaupi karla. Kristinn hljóp á 1:54,71 mín og varð í 2. sæti í hlaupinu en hann bætti gamla metið um rúma sekúndu.

Þá bætti kvennasveit HSK héraðsmetið í 4×400 metra boðhlaupi um rúmlega eina sekúndu. HSK hljóp á 4:08,31 mín og varð í 3. sæti í hlaupinu. Í sveitinni voru Fjóla Signý, Agnes, Sólveig og Eva Lind Elíasdóttir.

ÍR sigraði örugglega í stigakeppni félaganna með 133 stig. Lið HSK varð í 3. sæti með 103,5 stig, eins og lið Norðurlands en Norðlendingar sigruðu í fleiri greinum og urðu því fyrir ofan HSK. HSK karlar fengu 46,5 stig og voru í 5. sæti karlaliðanna en konurnar urðu í 2. sæti kvennaliðanna með 57,0 stig.

Fjóla Signý var eini keppandi HSK sem sigraði í sinni grein en hún varð bikarmeistari í hástökki, stökk 1,63 metra.

Fyrri greinLögreglan beitti piparúða við handtöku
Næsta greinKR-ingar lögðu Selfoss