Fimm fagmenn í þjálfarateymi Árborgar

Knattspyrnufélag Árborgar náði næstbesta árangri í sögu félagsins á síðasta tímabili þegar liðið komst í 8 liða úrslit í úrslitakeppni 4. deildar.

Á næsta tímabili ætlar liðið sér ekki minni hluti og hefur hafið æfingar á fullu og nú nýverið var lokið við að ráða þjálfarateymi fyrir félagið.

Undanfarin ár hefur verið félagið lagt mikinn metnað í að bæta umgjörð í kringum leikmenn liðsins og er árið í ár engin undantekning. Þjálfarateymi Knattspyrnufélags Árborgar mun vera skipað fimm aðilum, þeim Guðjóni Bjarna Hálfdánarsyni þjálfara, Ragnari Erni Traustasyni aðstoðarþjálfara, Hugrúnu Vignisdóttur sálfræðingi, Stefáni Magna Árnasyni sjúkraþjálfara og Daníel Berg Grétarssyni styrktarþjálfara.

Guðjón Bjarni er að hefja sitt fimmta ár í þjálfarateymi Árborgar og það fjórða sem aðalþjálfari félagsins. Ragnar Örn er nemi við íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík með áherslu á knattspyrnu og því mikill fengur að fá hann til starfa sem aðstoðarþjálfari. Stefán Magni er starfandi sjúkraþjálfari hjá Mætti sjúkraþjálfun á Selfossi og er því sérfróður um meðhöndlun íþróttamanna og hefur meðhöndlað leikmenn Árborgar frá því að hann lauk námi sínu. Hugrún Vignisdóttir er starfandi sálfræðingur hjá skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings ásamt því að sækja þekkingu í sálfræðimeðhöndlun íþróttamanna. Hugrún hafði aðkomu að liðinu á síðasta tímabili með góðum árangri og var því kjörið að fá hana til frekari starfa fyrir næsta tímabil. Daníel Berg er fyrrum atvinnumaður í handbolta með ómælda reynslu í líkamlegri uppbyggingu íþróttamanna.

Æfingar félagsins eru nú í fullum gangi þar sem styrktarþjálfari vinnur náið með leikmönnum þrisvar í viku ásamt tveimur fótboltaæfingum. Leikmenn hafa aðgang að lyftingaraðstöðu í Íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Knattspyrnuæfingarnar fara fram í Hamarshöllinni og á Selfossi. Aðstaða leikmanna Árborgar er því til fyrirmyndar sem er nauðsynleg til að skapa faglega umgjörð fyrir leikmenn félagsins.

Hafþór Theodórsson, forseti Knattspyrnufélags Árborgar, fangar því að hafa náð slíkum hópi sérfræðinga til að vinna með liðið og bindur miklar vonir við að þessi umgjörð komi til með að gera leikmönnum mögulegt að bæta sig sem einstaklingar sem og að ná auknum árangri sem lið. Knattspyrnufélag Árborgar er lið með metnað og er ekki í þessu til að leika sér. Stjórn, þjálfarar og leikmenn vilja árangur og hefur stjórnin ekki upplifað annað en hungur heildarinnar í hann. Komandi tímabil verður vonandi eitthvað sem aðdáendur Árborgar munu muna eftir.

Fyrri greinFjórir Selfyssingar á A-landsliðsæfingar
Næsta greinFátt um varnir í Iðu