Fimleikafólkið frá Selfossi hyllt

Fimleikadeild Umf. Selfoss hyllti í kvöld afreksfólk sitt sem tók þátt í Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Reykjavík um síðustu helgi.

Níu ungmenni alin upp í fimleikadeildinni á Selfossi voru í landsliðum Íslands og hlutu þau samtals sjö verðlaunapeninga.

Kvennalið Íslands hlaut silfurverðlaun en þær Eva Grímsdóttir og Rakel Natalie Kristinsdóttir voru báðar í liðinu. Kvennaliðið átti titil að verja og stóð sig frábærlega í drengilegri keppni við Svía, sem náðu gullinu að þessu sinni með litlum mun.

Blandað lið unglinga hlaut bronsverðlaun og í því liði voru fimm ungmenni frá Selfossi, þau Alma Rún Baldursdóttir, Eysteinn Máni Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson, Nadia Björt Hafsteinsdóttir og Rikharð Atli Oddsson. Þetta er í fyrsta sinn sem blandað lið unglinga frá Íslandi vinnur til verðlauna á EM en liðið var hársbreidd frá silfurverðlaununum. Einn þjálfara liðsins er Selfyssingurinn Tanja Birgisdóttir.

Blandað lið fullorðinna stóð sig einnig mjög vel og varð liðið í fimmta sæti. Í því liði voru Selfyssingarnir Aron Bragason og Hugrún Hlín Gunnarsdóttir.

Fimleikadeildin boðaði til athafnar í íþróttahúsinu Baulu í kvöld þar sem fjölmenni hyllti þetta glæsilega íþróttafólk. Deildin færði þeim rósir og gjafabréf á jólahlaðborð og fulltrúar sveitarfélagsins færðu þeim rósir og bíómiða. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, ávarpaði samkomuna, sem og Guðmundur Kr. Jónsson, formaður Umf. Selfoss.

Þá flutti Þóra Þórarinsdóttir, formaður fimleikadeildarinnar, stutt ávarp og sagði að þrátt fyrir að hópurinn hafi lagt á sig miklar æfingar síðustu mánuði væri árangur þeirra ekki búinn til á einum degi. „Þau búa vel að grunninum og bera yngri flokka starfi okkar fagurt vitni. En til þess að árangur náist þarf svona hópur að hafa samfélagið með sér og þar leggst allt á eitt,“ sagði Þóra og þakkaði bæði þjálfurum deildarinnar og fjölmörgum styrktaraðilum hennar sérstaklega.


Hópurinn frá Selfossi sem tók þátt í EM. (F.v.) Konráð, Aron, Ríkharð, Eysteinn, Nadia, Rakel, Eva, Hugrún og Alma. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBílar útaf og þakplötur flugu
Næsta greinStjórnin stendur þétt við bakið á Haraldi