Fimleikadeildin vill að valnefnd kjósi íþróttafólk ársins

Stjórn Fimleikadeildar Ungmennafélags Selfoss vill að íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar taki verklag um val íþróttakarls og íþróttakonu sveitarfélagsins til gagngerrar endurskoðunar.

Í bókun stjórnar fimleikadeildarinnar er lagt til að skipuð verði fimm manna fagnefnd sem sjái um að yfirfara tilnefningarnar. Nefndinni verði jafnframt settar verklagsreglur þannig að ljóst sé hvað vegi þyngst þegar veita á viðurkenningar, hvort það séu afrek og árangur eða iðjusemi og framtíðahorfur.

Þá segir stjórn fimleikadeildarinnar að leyfa mætti almenningi að hafa eitthvað um málin að segja með rafrænni kosningu, og gæti niðurstaða slíks netvals vegið á móti atkvæðum nefndarmanna.

Íþrótta- og menningarnefnd tók bókun fimleikadeildarinnar fyrir á síðasta fundi sínum. Nefndin hóf endurskoðun á kjörinu á síðasta ári og var meðal annars stefnt að því að koma á rafrænni kosningu til að auka þátttöku íbúa. Ekki vannst tími til að koma kosningunni á fyrir kjörið á síðasta ári. Einnig er stefnt að því að halda kynningarfund í desember á hverju ári til að kynna þá sem eru tilnefndir. Stefnt er á að endurskoðunarvinnunni ljúki fyrri hluta þessa árs.