Filip og Einar sigruðu á Halldórsmótinu

Á dögunum fór Halldórsmótið í skák fram í Flúðaskóla. Mótið er haldið til minningar um Halldór Gestsson sem var húsvörður í skólanum um árabil og gerði skákíþróttinni góð skil meðan hans naut við.

Ófáir fyrrum nemendur Flúðaskóla nutu góðs af skákáhuga Halldórs sem bæði kenndi nemendum í valfögum og var einnig duglegur að segja nemendum til á förnum vegi. Þá hélt Halldór utan um fjöldamörg skákmót sem fram fóru í Flúðaskóla á hans starfsferli.

Var þetta í fimmta sinn sem mótið er haldið og var þátttaka góð eins og áður. Nemendur fá frí frá skólabókum og bíða margir þeirra spenntir eftir mótinu ár hvert. Alls tóku 82 nemendur þátt, en það eru nemendur í 3.-10. bekk sem hafa þáttökurétt. Um 80% nemenda tók þátt í mótinu og er starfsfólk Flúðaskóla stolt af þeirri tölu.

Úrslit mótsins voru eftirfarandi:

Yngri flokkur (3.-7. bekkur)
1. Filip Jan Jozefik 6,5 v
2. Vitaliy Krayduba 5,5 v
3. Nói Mar Jónsson 5,5 v

Eldri flokkur (8.-10. bekkur)
1. Einar Trausti Svansson 6,5 v
2. Elís Arnar Jónsson 6 v
3. Óskar Sigmundsson 6 v

Fyrri greinSafna fé fyrir nágranna sína á Grænlandi
Næsta greinDæmd fyrir manndráp af gáleysi