FH knúði fram oddaleik á Selfossi

Selfoss og FH mætast í oddaleik á Selfossi á miðvikudagskvöld. FH-ingar höfðu betur í fjórða leik undanúrslitaeinvígis Íslandmóts karla í handbolta í rafmögnuðum spennuleik í Kaplakrika í kvöld.

Jafnt var á öllum tölum fyrstu sextán mínúturnar en þá skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni úr 6-6 í 6-9. Selfoss náði mest fjögurra marka forskoti í kjölfarið en leiddi í leikhléi 15-17.

FH-ingar voru sterkari í upphafi seinni hálfleiks og jöfnuðu fljótlega 19-19. Eftir það var leikurinn jafn og spennandi og liðin skiptust á um að hafa undirtökin. Selfyssingar voru í góðri stöðu með tveggja marka forskot og boltann í höndunum þegar rúm ein mínúta var eftir af leiknum. Markvörður FH varði næsta skot og í lokasókn sinni fengu Selfyssingar dæmda á sig leiktöf. FH jafnaði 34-34 þegar tvær sekúndur voru eftir.

Í framlengingunni féll allt með FH-ingunum sem gengu á lagið og náðu þriggja marka forskoti þegar tvær mínútur voru eftir. Heimamenn héldu út og sigruðu 41-38.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 13/6 mörk, Haukur Þrastarson skoraði 7, Teitur Örn Einarsson 6, Atli Ævar Ingólfsson 4, Hergeir Grímsson 4, Guðni Ingvarsson 2 og Elvar Örn Jónsson 2.

Markverðir Selfoss áttu ekki góðan dag en Helgi Hlynsson varði 5/1 skot og Sölvi Ólafsson 2.

Liðin mætast í oddaleik á Selfossi kl. 20:00 á miðvikudagskvöld.

Fyrri greinTveir staðnir að utanvegaakstri
Næsta greinChris Caird tekur við Selfossliðinu