FH afgreiddi Selfoss í seinni hálfleik

Selfoss tapaði 5-2 þegar liðið heimsótti FH í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. FH-ingar afgreiddu Selfoss í seinni hálfleik eftir jafnan fyrri hálfleik.

FH-ingar voru meira með boltann í fyrri hálfleik en Selfyssingar fengu betri færi. FH komst yfir á 18. mínútu með þrumuskoti úr teignum en Tómas Leifsson jafnaði metin á 30. mínútu með skoti af stuttu færi eftir skalla frá Jóni Daða Böðvarssyni. Bæði lið áttu sláarskot, FH í upphafi leiks en Ólafur Finsen skallaði í þverslána á 40. mínútu. 1-1 í hálfleik.

FH afgreiddi Selfyssinga með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla í byrjun seinni hálfleiks en staðan var orðin 3-1 á 53. mínútu. Eftir það voru FH-ingar líklegri allan tímann og þeir bættu við tveimur mörkum til viðbótar á 79. og 88. mínútu. Varamaðurinn Dofri Snorrason minnkaði hins vegar muninn fyrir Selfoss á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar hann fór illa með varnarmann FH og skoraði úr teignum.

Selfoss er enn í 11. sæti deildarinnar með 8 stig en bilið breikkar í Framara sem gerðu jafntefli við Grindavík í kvöld og hafa nú 13 stig í 10. sæti. Selfoss og Fram eigast einmitt við í næstu umferð en liðin mætast á Selfossvelli á sunnudagskvöld.

Fyrri greinMikil vinna lögð í stígaviðhald
Næsta greinStefnir í metsumar – vallarbreytingar í haust