Ferðasaga Frískra Flóamanna í Slóveníu

Hópurinn sem fór til Slóveníu. Ljósmynd/Frískir Flóamenn

Fimmtudaginn 7. september síðastliðinn flugu tuttugu félagar úr hlaupahópnum Frískir Flóamenn, til München þar sem Kjartan Steindórsson fararstjóri tók á móti þeim og vísaði á rútu sem keyrði hópinn til Kranjska Gora í Slóveníu. Rútuferðin tók u.þ.b. fimm klukkustundir þar sem ekið var í gegnum Austurríki og stoppað á leiðinni í Salzburg.

Kjartan fararstjóri var búinn að skipuleggja ferðina í samstarfi við Öbbu og Bárð úr stjórn FF. Tilgangur ferðarinnar var að taka þátt í utanvega-hlaupaviðburði, Julian Alp Trail Run í UTMB mótaröðinni. Í boði voru sex mismunandi vegalengdir, 10 km með 290 m hækkun, 16 km með 520 m hækkun, 25 km með 950 m hækkun, 60 km með 3000 m hækkun, 100 km með 4.400m hækkun og 174km með 8.000 m hækkun hækkun.

Á laugardeginum, þann 9. september, lögðu fjórir úr hópnum af stað kl. 7 um morguninn í 60km. hlaupið. Lagt var af stað í menningarbænum Zirovnica, rétt fyrir ofan Bled vatnið og hlaupið til Kranjska Gora en á leiðinni var m.a. farið upp 1.700 m háa brekku sem kallast „Veggurinn“. Þessir fjórir voru; Bárður Árnason, Börkur Brynjarsson, Guðmundur Tryggvi Ólafsson og Þorsteinn Másson. Þeir hlupu leiðina saman og komu í mark á níunda tímanum um kvöldið eftir rúmlega 13,5 klst. Samtals voru 506 keppendur sem kláruðu þetta hlaup.

Lilja, Sigmundur og Ingileif með verðlaunapeningana. Ljósmynd/Frískir Flóamenn

Klukkan 9 lögðu svo tíu félagar af stað í 25 km vegalengdina þar sem hlaupið var hring í fjöllunum í kringum Kranjska Gora, í gríðarlega fallegu landslagi allan tímann. Þau sem tóku þátt í þessu hlaupi voru; Aðalbjörg Skúladóttir, Auður Ólafsdóttir, Ágúst Sigurjónsson, Björk Steindórsdóttir, Guðlaug Harpa Gunnarsdóttir, Hanna Bryndís Heimisdóttir, Lilja Kristófersdóttir, Sigmundur Stefánsson, Sigrún Hreiðarsdóttir og Þórfríður Soffía Haraldsdóttir. Öll komust heil í mark og Sigmundur og Lilja náðu í verðlaunasæti í sínum aldursflokkum, Sigmundur fékk gull og Lilja silfur. Ekki amalegur árangur! 637 keppendur komu í mark í þessari vegalengd.

Kl. 17 var síðan ræst í 16 km hlaupið en hjónin Svanlaug Kjartansdóttir og Óskar Helgi Guðnason voru fulltrúar FF í þeirri vegalengd og luku því með glæsibrag. Þau hlupu einnig hring í fjöllunum og skóginum kringum Kranjska Gora. 260 keppendur luku við þessa vegalengd.

Síðasta ræsing dagsins var svo í 10 km hlaupið sem er minni útgáfa af hring um þetta stórkostlega landssvæði. Fulltrúar FF voru Hrund Baldursdóttir, Ingileif Auðunsdóttir og Svanhildur Gunnlaugsdóttir. Ingileif gerði sér lítið fyrir og var í þriðja sæti í sínum flokki og vann bronsverðlaun. Magnaður árangur að koma heim með alla verðlaunalitina, gull, silfur og brons! Samtals komu 174 í mark í þessu hlaupi.

Áð í hjólaferðinni. Ljósmynd/Frískir Flóamenn

Á sunnudeginum 10. september fór svo hópurinn í rafhjólaferð um fjalllendið í nágrenni Kranjska Gora þar sem hjólað var m.a. til Ítalíu og að landamærum Austurríkis, samtals um 45 km. Á hæsta punkti sem stoppað var á, var verið að halda árlega landamæra hátíð þar sem saman koma íbúar frá Slóveníu, Ítalíu og Austurríki og fagna því að engin landamæragæsla er lengur til staðar og allir geta farið frjálst á milli landa.

Mánudagurinn var síðan ferðadagur en þá var ekið aftur til München þar sem gist var eina nótt og haldinn sameiginlegur kvöldverður áður en flogið var heim á þriðjudeginum. Algjörlega mögnuð ferð þar sem allir náðu markmiðum sínum og nutu stórkostlegs landslags í veðurblíðu og frábærum félagsskap.

Framundan er svo spennandi hlaupavetur með nýjum þjálfara en fyrsta æfing með þjálfarar er í dag, þriðjudaginn 19. september.

Óskar, Báður og Ágúst á Ítalíu. Ljósmynd/Frískir Flóamenn
Fyrri grein„Margir verið að bíða eftir Würth á Selfossi“
Næsta greinÍþróttaskemma í Hveragerði