Fengu tvö víti á sig á lokamínútunum

Íris Sverrisdóttir, fyrirliði Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tapaði 2-1 þegar liðið heimsótti Fram í 2. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Hamar var meira með boltann í fyrri hálfleik en náðu ekki að koma boltanum í netið og staðan var 0-0 í hálfleik. Hvergerðingar voru fyrri til að skora í seinni hálfleiknum þegar Íris Sverrisdóttir kom boltanum í netið á 66. mínútu eftir hornspyrnu.

Framarar gáfust ekki upp og þær uppskáru vítaspyrnu á 81. mínútu og aðra vítaspyrnu tveimur mínútum síðar. Þær rötuðu báðar í netið og Fram tryggði sér 2-1 sigur.

Hamar er í 8. sæti deildarinnar með 10 stig en Fram er á botninum – einnig með 10 stig en lakara markahlutfall.

Fyrri greinJafntefli í lokaleik sumarsins
Næsta greinSelfoss mætir Breiðabliki í undanúrslitum