Félagsskapurinn skiptir mestu máli

Tvisvar í viku hittist lítill, fámennur en góðmennur hópur fólks í Sundhöll Selfoss til þess að iðka sundíþróttina sér til skemmtunar.

Flestir í hópnum æfðu sund á sínum yngri árum en kjósa að nota sund sem sína hreyfingu. Einn þeirra er íþróttafræðingurinn og sundmaðurinn Magnús Tryggvason, sem var þjálfari á Selfossi á árum áður. Magnús segir að þetta sé annar veturinn sem hópurinn hittist til að æfa svona formlega. „Þó er lítið formlegt við þetta en þetta byggist náttúrulega allt á dugnaði þeirra sem eru að æfa.”

Æfingar klukkan hálf sex á fimmtudagsmorgnum
Magnús segir að sá hópur sem mætir reglulega á æfingar telji sex til átta einstaklinga. Æfingar eru á fimmtudagsmorgnum klukkan hálf sex og svo á sunnudagseftirmiðdögum klukkan fimm. Hann segir félagsskapinn í kringum þetta vera það sem skipti mestu máli. „Við erum kannski ekki mikið að hittast fyrir utan æfingar en við erum með sérstakan hóp á Facebook þar sem skotið er á þá sem mæta ekki á æfingar og æsum hvert annað upp í það að mæta.”

Keppt er á svokölluðum garpasundmótum hér á landi og segir Magnús að þeir yngstu á þeim mótum séu í aldursflokknum 25-29 ára. „En það eru frekar fáir sem eru að keppa í þeim aldurflokki. Flestir eru komnir yfir þrítugt.”

Selfyssku garparnir hafa það sem af er þessu ári tekið þátt í þremur garpamótum. „Við tókum þátt í Garpamóti Ægis, Íslandsmóti garpa og á Norðurlandamóti garpa sem fram fór í Laugardalnum. Hópnum hefur gengið mjög vel á þessum mótum og hefur fólk verið að synda mjög vel. Einnig hafa nokkrir úr hópnum unnið nokkurt magn af verðlaunapeningum.”

Stormsveipurinn frá Selfossi
Magnús rifjar upp eftirminnilegt atvik sem gerðist á móti það sem Stefán Reyr Ólafsson var að keppa í 50 metra skriðsundi. „Eftir stunguna var hann einum og hálfum metra á undan þeim sem hann var að keppa við. Stefán vann sundið með svo miklum yfirburðum að menn vissu varla í hvort fótinn þeir áttu að stíga þegar stormsveipurinn frá Selfossi mætti á svæðið,” segir Magnús og heldur áfram að rifja upp skemmtileg atvik af mótum.

Það var á Norðurlandamótinu fyrr á þessu ári sem Selfyssingar tóku þátt í boðsundi en sveitin var skipuð tveimur körlum og tveimur konum. „Sveitin var með góða forystu þegar kom að síðustu skiptingunni. Einn af keppinautum okkar var sveit Ægis en síðasta sprettinn fyrir þá synti ólympíufarinn Jakob Jóhann Sveinsson. Sveit Ægis kom fyrst í mark og vann þar með sundið. En stuttu seinna kom í ljós að Jakob hafi þjófstartað sem gerði það að verkum að Ægismenn voru dæmdir úr leik. Þannig þurfti þjófstart til að vinna Selfyssingana,” segir Magnús og hlær.

Frábær félagsskapur
Að sögn Magnúsar er það félagsskapurinn sem skiptir kannski hvað mestu máli. „Á sundmótum er maður að hitta alla sem maður var að æfa og keppa með hérna í gamla daga. Og fyrir mér skiptir það mestu máli. En það sem gerir garpasundið kannski ennþá skemmtilegra fyrir mig er ég að þjálfa nokkra úr hópnum sem ég þjálfaði fyrir mörgum árum. Og það er ennþá jafn skemmtilegt að vinna með þessum hópi í dag og það var þá. Og jafnvel enn skemmtilegra en það var,” segir Magnús að lokum.

Fyrri greinNetbókabúð í sókn
Næsta greinVISS kemst í jólaskap