„Fékk mjúka tilfinningu í líkamann eftir leik“

„Þetta var ævintýralegt. Að skora í sínum fyrsta keppnisleik með landsliðinu á stóra sviðinu, það var bara æðislegt.“

Þetta sagði Jón Daði Böðvarsson, framherji íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við sunnlenska.is eftir landsleikinn gegn Tyrkjum í undankeppni EM 2016 á Laugardalsvellinum í kvöld. Jón Daði átti algjöra draumabyrjun í sínum fyrsta keppnisleik fyrir liðið en hann skoraði fyrsta mark Íslands í frábærum 3-0 sigri og átti heilt yfir mjög góðan leik.

„Þessi byrjun er framar vonum. Tyrkirnir eru auðvitað frægt lið og með sterka leikmenn en mér fannst við bara eiga þá í kvöld. Við stýrðum leiknum og lokuðum vel á þá þannig að þeir fengu ekki mikinn tíma með boltann. Við náðum að skapa ógn með skyndisóknum og planið gekk vel upp,“ segir Jón Daði. Hann hefur hingað til leikið þrjá æfingaleiki með landsliðinu en markmið hans varðandi landsliðið eru skýr.

„Það hefur alltaf verið markmið mitt að vinna mér sæti í hópnum og vera mikilvægur leikmaður í framtíðinni fyrir landsliðið. Vonandi mun þetta bara halda áfram hjá mér. Svo er U21 árs liðið komið í umspil fyrir lokakeppni EM 2015 og ég er ennþá gjaldgengur með þeim þannig að þetta lítur frábærlega út,“ sagði Jón Daði en hann spilaði með U21 árs liðinu í sigri á Armenum í síðustu viku.

En átti Jón von á að byrja leikinn í kvöld og spila 90 mínútur eins og raunin varð?

„Nei, kannski ekki. Eftir U21 árs leikinn í síðustu viku bjóst ég við að fá að spila en kannski ekki endilega byrja. Landsliðsþjálfararnir Lars og Heimir eru búnir að sýna mér mikið traust og hópurinn er búinn að hjálpa mér að komast inn í liðið þannig að ég var kannski ekkert hissa þegar byrjunarliðið var tilkynnt. Það var komin ákveðin þægindatilfinning að vera í þessum frábæra hópi. Þetta er algjör yfirburða hópur og frábærir leikmenn. Þegar liðið spilar vel þá er einstaklingurinn góður og það var þannig í dag.“

Jón Daði kom Íslandi í 1-0 á 18. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu. „Við gerðum þetta akkúrat eins og var búið að plana þetta. Ég beið á fjærstönginni og náði að sníkja mér þarna og pota honum með skalla inn. Við vorum búnir að fara vel yfir taktík og hornspyrnur og ég var mættur á mínu svæði þannig að það var æðislegt að það gekk upp,“ sagði Jón Daði sem þrátt fyrir frábæran leik fær ekki háa einkunn fyrir tilþrifalítið fagn eftir markið.

„Nei, ég var varla viðbúinn þessu. Ég vissi hreinlega ekki hvernig ég átti að vera, ég bara hljóp eitthvað og öskraði. Að skora mark er æðisleg tilfinning og þegar maður gerir það á svona stóru sviði með landsliðinu þá hverfur allt í smá stund í hausnum á manni.“

Stemmningin á Laugardalsvellinum var frábær í kvöld og Jón Daði segir að leikurinn eigi eftir að lifa alla tíð í minningunni. Hann var líka vel studdur í stúkunni af fjölskyldu og vinum.

„Mamma og pabbi voru á leiknum en þetta er einn af fáum leikjum sem mamma hefur komið á. Hún er svolítið slæm í kroppnum út af gigt en hún kom á leikinn og það var æðislegt að sjá hana svona hamingjusama eftir leik og fá að knúsa hana. Maður fékk svona mjúka tilfinningu í líkamann eftir leik.“


Söngvarinn Jón Daði tók að sjálfsögðu undir í þjóðsöngnum fyrir leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Jón Daði átti mjög fínan leik í sókninni og lék varnarmenn Tyrkja oft grátt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinNM grunnskólasveita haldið á Selfossi
Næsta grein„Ég verð bara að vera þolinmóður“