Feðgar í landsliði Íslands

Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum eru feðgarnir Hinrik Bragason og Gústaf Ásgeir Hinriksson báðir í íslenska landsliðinu sem fer á Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín í byrjun ágúst.

Slíkt gerist vissulega ekki á hverjum degi en þó eru ekki nema sex ár síðan feðginin Sigurbjörn Bárðarson og Sylvía Sigurbjörnsdóttir voru saman í landsliðinu á mótinu árið 2005 í Svíþjóð.

Hinrik var valinn í landsliðið eftir að hafa sigrað úrtökumót fyrir landsliðsval en hann keppir á Smyrli frá Hrísum í tölti og fjórgangi. Gústaf Ásgeir var valinn í liðið af liðstjóra landsliðsins og keppir í flokki ungmenna á hryssunni Björk frá Enni í fjórgangi og slaktaumatölti.

„Það er ekki sjálfgefið að komast í landsliðið en við vonuðumst til þess að hlutirnir myndu þróast þannig að við kæmumst báðir inn í liðið þó við séum ekki í keppni við hvorn annan,“ segir Hinrik í samtali við Sunnlenska. Hann segist vitaskuld sem faðir óendanlega stoltur að hafa son sinn með í landsliðinu. „Þetta er merkur áfangi í sjálfu sér. Frá þessum tímapunkti er markmiðið að mæta rótsterkir til leiks, við erum báðir með mjög góð hross í toppformi og tilbúin í átökin,“ segir Hinrik.

Gústaf segir að mótið fari í reynslubankann hjá sér og hann sé slakur ennþá því auðvitað sé þetta eins og hvert annað mót. „En ég geri mér grein fyrir því að það er þrýstingur og krafa um að standa sig og ná góðum árangri,“ segir Gústaf. Og það ætlar hann svo sannarlega að gera. „Enda fæ ég næga hvatningu þegar ég er að keppa fyrir íslenska landsliðið og þetta tækifæri er einstakt fyrir mig.“

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinLyngdalsheiðin vinsæl til hraðaksturs
Næsta greinMalbikað austan við Selfoss