„Fáum fólkið með okkur“

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari og Emil Karel Einarsson, sjúkraþjálfari. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Það er góð stemmning og samstaða í hópnum hjá okkur og mikil spenna fyrir kvöldinu,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is en í kvöld heimsækir Selfoss Fylki í Árbæinn í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu.

Selfoss hefur slegið HK/Víking og Stjörnuna úr leik á leið sinni í undanúrslitin og einnig verið á miklu skriði í deildinni á síðustu vikum.

„Já, það er búið að ganga vel hjá okkur að undanförnu og við erum staðráðin í að halda þessu góða flugi áfram áfram. Bikarkeppnin er að sjálfsögðu öðruvísi en deildarleikur. Það er allt eða ekkert í kvöld og það verða allir að vera á tánum og tilbúnir í slaginn enda er Fylkir með hörkulið,“ segir Alfreð og bætir við að hann vonist eftir góðum stuðningi úr stúkunni.

„Ég vona að við fáum fólkið með okkur eins og svo oft áður. Stuðningsmenn Selfoss hafa sýnt það aftur og aftur að þeir eru þeir bestu á landinu. Við fengum til dæmis frábæran stuðning á útivelli í Vestmannaeyjum í síðustu viku og nú þurfum við að taka Árbæinn yfir,“ segir Alfreð að lokum.

Selfyssingar bjóða upp á sætaferðir á leikinn í kvöld en flautað verður til leiks í Árbænum kl. 19:15. Athygli er vakin á því að Hellisheiðin er lokuð vegna malbikunar og því þurfa Selfyssingar að fara Þrengslaveg til Reykjavíkur.

Fyrri greinAri ráðinn framkvæmdastjóri fjármála
Næsta greinBjörguðu hrossi upp úr haughúsi