Fantaakstur en lítil uppskera hjá Sunnlendingunum

Alþjóðlega rallkeppnin Shell V-Power Rally Reykjavík 2012 fer fram um helgina. Þrjár sunnlenskar áhafnir taka þátt í rallinu en gengi þeirra hefur ekki verið nógu gott.

Rallið hófst í gærkvöldi en í dag var ekið um Suðurland, á Hellisheiði, um Dómadal og nágrenni Heklu svo einhverjar leiðir séu nefndar. Að loknum tveimur keppnisdögum hafa Hilmar Bragi Þráinsson og Dagbjört Rún Guðmundsdóttir tæplega mínútu forskot á Marian Sigurðsson og Ísak Guðjónsson.

Þrjár sunnlenskar áhafnir taka þátt í rallinu. Selfyssingurinn Halldór Gunnar Jónsson er aðstoðarökumaður hjá bróður sínum Heimi Snæ. Þeir voru í góðum málum, komnir upp í fjórða sæti, þegar mótorinn í Cherokee bíl þeirra gaf sig eftir að gat kom á olíupönnuna á sérleið um Heklu. Þátttaka þeirra varð því ekki lengri í keppninni.

Selfyssingurinn Þór Líni Sævarsson ekur Subaru Imprezu með Sigurbjörn Ingvarsson frá Þorlákshöfn sér við hlið. Þeir hafa verið að aka greitt en þurftu að hætta keppni vegna vélarbilunar á öðrum legg keppninnar í morgun. Þeir fengu að halda áfram keppni á þriðja legg sem hófst eftir hádegi í dag en fá við það þrjátíu mínútna refsitíma þannig að þeir eru nú í 16. sæti í rallinu en 23 bílar hófu keppni.

Á sérleið um Hellisheiði sem ekin var í kvöld sýndu þeir Líni og Sigurbjörn bestu tilþrifin þar sem þeir flugu útaf beint fyrir framan ljósmyndara sunnlenska.is en með samblöndu af heppni og klókindum náði Líni að halda bílnum á hjólunum og komast aftur upp á veg úr djúpum skorningi. Myndir af útafakstrinum má sjá hér að neðan.

Þriðja sunnlenska áhöfnin ekur um á Trabant 601 en Óskar Jón Hreinsson í Halakoti í Flóahreppi er aðstoðarökumaður hjá Erni Ingólfssyni. Þrátt fyrir að vera á kraftminnsta bílnum hefur Örn sýnt seiglu á Trabantinum og sannast þar máltækið “kemst, þó hægt fari”. Örn og Óskar eru í 19. sæti að loknum öðrum keppnisdegi.

Rallinu lýkur á morgun, laugardag, þar sem meðal annars verður ekið um Bolabás, Tröllháls, Uxahryggi, Kaldadal og Hengil í fyrramálið.

thor_lini2_rally_reykjv070912gk_837907281.jpg
Líni og Sveinbjörn komnir í vond mál á Hellisheiðinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

thor_lini3_rally_reykjv070912gk_533856250.jpg
En þeir náðu að bjarga sér úr klípunni með harðfylgi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

UPPFÆRT 09/09/12 KL. 23:58