Fanney með 34 stig í naumu tapi

Hamar velgdi toppliði Keflavíkur verulega undir uggum þegar liðin mættust í Domino's-deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Úrslitin urðu 86-91 í jöfnum leik.

Fyrsti leikhlutinn var jafn og staðan að honum loknum 20-24. Hamar komst yfir um miðjan 2. leikhluta 36-33 en Keflavík svaraði þá með 2-9 áhlaupi og breytti stöðunni í 38-43. Hamar skoraði hins vegar sex síðustu stigin í fyrri hálfleik og staðan í leikhléinu var 44-43.

Jafnt var á flestum tölum í 3. leikhluta en undir lok hans settu Hamarskonur niður tvö þriggja stiga skot og náðu í framhaldinu sex stiga forskoti, 69-63.

Hamar hafði sjö stiga forskot, 73-66, í upphafi 4. leikhluta en þá kom 3-17 áhlaup frá gestunum sem gerðu þar með út um leikinn. Keflavík breytti stöðunni í 76-83 þegar þrjár mínútur voru eftir. Hamar gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana og minnkaði muninn aftur niður í þrjú stig á lokamínútunni en nær komust Hvergerðingar ekki.

Fanney Lind Guðmundsdóttir var stigahæst Hvergerðinga með 34 stig, Di’Amber Johnson skoraði 20, Marín Laufey Davíðsdóttir 14, Íris Ásgeirsdóttir 7, Dagný Lísa Davíðsdóttir 6, Jenný Harðardóttir 3 og Sóley Guðgeirsdóttir 2.

Fyrri greinSelfoss skoraði 44 mörk á Ísafirði
Næsta greinRafmagnslaust á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn