Fannar stóð sig frábærlega í Finnlandi

Finnska unglingameistaramótið í golfi fór fram í síðustu viku. Fannar Ingi Steingrímsson, Golfklúbbi Hveragerðis, stóð sig frábærlega á mótinu en hann varð í 3. sæti í flokki 14 ára stráka.

Mótið fór fram í Vierumäki í Finnlandi. Fimm íslenskir unglingar tóku þátt í mótinu og stóðu sig með mikilli prýði.

Árangur Fannars Inga stóð upp úr en hann varð í þriðja sæti í strákaflokki 14 ára og yngri. Hann lék hringina þrjá á samtals níu höggum yfir pari og lék lokahringinn á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari.

Að sögn Úlfars Jónssonar landsliðsþjálfara stóðu íslensku krakkarnir sig með stakri prýði og landsliðsþjálfarinn var sérstaklega ánægður með Fannar. „Það er ekki á hverjum degi sem 13 ára Íslendingur leikur hring undir pari og kemst á verðlaunapall í alþjóðlegu móti, það var ekkert minna en stórkostlegt,“ segir Úlfar í frétt á golf.is.

„Fannar lék einstaklega vel frá teig að flöt, en fyrsta daginn gengu púttin engan veginn og hann lék á 80 höggum. Á öðrum hring hitti hann nánast allar brautir og 17 flatir af 18 í innáhöggi og setti nokkur góð pútt niður. A þessum hring var hann með 4 þrípútt, þannig að skorið hefði getað verið, eins og alltaf, aðeins lægra. Síðan stóð hann sig eins og hetja á lokahringnum. Hann upplifði pressuna að vera í lokaholli og stóðst hana. Með þessum árangri sýnir hann ungum kylfingum að hægt sé að ná góðum árangri á erlendri grundu.“