Fannar og Teitur með átta titla

Unglingameistaramót Íslands í aldursflokkum 15 – 22 ára fór fram á Kópvogsvelli á dögunum. HSK SELFOSS sendi tólf keppendur til leiks sem stóðu sig frábærlega.

Niðurstaðan var 13 gull, 13 silfur og 4 brons og þriðja sætið í heildarstigakeppni félaga. Rúsínan í pylsuendanum var svo Íslandsmeistaratitill í stigakeppni félaga í flokki 15 ára pilta þar sem HSK SELFOSS var með tvo keppendur þá Fannar Yngva Rafnarsson Þór og Teit Örn Einarsson Selfossi en þeir fóru hamförum á mótinu. Fannar Yngvi sigraði í fimm greinum og Teitur Örn í þremur.

Keppendur HSK SELFOSS voru afkastamiklir í að vinna Íslandsmeistaratitla um helgina. Í flokki 15 ára pilta varð Fannar Yngvi Íslandsmeistari í langstökki með 5,95m, í 400m hlaupi á stórbætingu, 54,23 sek., átti áður 54,94 sek., í hástökki með stökk upp á 1,68m, þrístökki með 12,58m sem er rétt við hans besta og í 200m hlaupi sem hann stórbætti sig í, kom í mark á 24,24 sek. en Fannar átti áður 24,74 sek. Fannar var ekki hættu því að hann stórbætti sig í 100m hlaupinu er hann kom í mark á 11,82 sek.,bætti sig úr 12,09 sek. og varð sjónarmun á eftir sigurvegaranum sem var á 11,81 sek. Fannar og Teitur urðu svo í þriðja sæti í 4x100m boðhlaupi í flokki 20 – 22 ára ásamt Sigþóri Helgasyni Selfossi og Hrafni Sigurðarsyni Dímon. Teitur Örn sigraði í 1500m hlaupi á 5:13,18 mín, í kringlukasti (1kg) með 41,60m löngu kasti og svo í kúluvarpi (4 kg) þegar hann varpaði 14,64m.

Í flokki 16-17 ára pilta sigraði Sigþór Helgason Selfossi í spjótkasti (700gr) með tæplega þriggja metra bætingu, kastaði 59,95m, hann varð svo annar í kúluvarpi varpaði 13,25 (5kg) ásamt bronsi í boðhlaupinu. Stúlkurnar í 16 ára flokknum gerðu ágæta hluti, Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi tók þrenn silfurverðlaun, í sleggjukasti (3kg), kastaði 38,71 m, í kringlu (1kg) með 30,17 m og í kúluvarp með kast upp á 11,54m. Sólveig Helga Guðjónsdóttir Selfossi vann til bronsverðlauna í 400m hlaupi á 64,42 sek. og 200m hlaupi á 27,66 sek.

Í stúlknaflokki 18-19 ára átti HSK SELFOSS þrjá sterka keppendur sem urðu í örðu sæti í stigakeppninni í þessum flokki. Eva Lind Elíasdóttir Þór sigraði í kúluvarpi (4kg) er hún bætti sig, kastaði 11,63 m. Átti áður 11,56 síðan 2010. Eva varð svo önnur í sleggjukasti (4kg)þar sem hún bætti sig um rúmlega metra, kastaði 37,72 m, í 100m hlaupi á tímanum 13,24 sek, í 100m grindahlaupi á 15,72 sek.og svo í spjótkasti (600gr) með 28,72 m kasti en þar sigraði Jóhanna Herdís Sævarsdóttir Laugdælum með kast upp á 30,92 m. Jóhanna varð svo einnig Íslandsmeistari í kringlukasti (1kg) með kast upp á 28,5 m. Theodóra Jóna Guðnadóttir Dímon vann svo silfurverðlaun í stangarstökki er hún vippaði sér yfir 2,30 m. Jóhanna Herdís og Theodóra Jóna ásamt Andreu Victors. og Sólveigu Helgu tóku svo silfur í 4×100 m boðhlaupi, runnu skeiðið á 58,04 sek.

Að lokum er það elsti flokkur pilta, 20 – 22 ára, en þar keppti Hreinn Heiðar Jóhannsson Laugdælum í sinni sterkustu grein, hástökki þar sem hann bætti sig, stökk 1,98 m og gjörsigraði andstæðinga sína. Dagur Fannar Magnússon Selfoss tók svo silfur í sinni greina sleggjukastinu (7,26 kg) er hann henti henni 43,63 m.

Ólafur Guðmundsson

Fyrri greinFyrstu réttir 6. september
Næsta greinGunnar Marel sýnir á Menningarnótt