Fannar Karvel ráðinn framkvæmdastjóri

Fannar Karvel (í miðið) ásamt stjórnarmönnunum Jóni St. Sveinssyni og Guðjóni Bjarna Hálfdánarsyni. Ljósmynd/Arnar Helgi Magnússon

Fannar Karvel hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Ungmennafélags Selfoss. Hann tekur við starfinu af Sveinbirni Mássyni, sem hefur gegnt starfinu síðastliðin 14 ár. Sveinbjörn er þó ekki horfinn á braut því hann tekur við starfi vallarstjóra á Selfossvelli í fullu starfi.

Fannar Karvel er vel giftur fjögurra barna faðir, fæddur í Bolungarvík og Vestfirðingur í húð hár. Undanfarin 20 ár hefur hann starfað sem styrktarþjálfari og síðustu níu ár hefur hann rekið Spörtu Heilsurækt í Reykjavík ásamt því að sjá um styrktarþjálfun ýmissa liða í fót-, hand- og körfubolta. Hann hefur undanfarin ár verið styrktarþjálfari HSÍ ásamt því að sjá um líkamlega þjálfun landsdómara KSÍ.

Fannar er menntaður íþróttafræðingur frá HR auk þess að klára MBA í íþróttastjórnun frá Real Madrid Graduate School en í því námi vann hann m.a. verkefni fyrir NFL og NBA deildirnar um útvíkkun í Evrópu auk stækkunar Under Armour vörumerkisins á Spáni ásamt verkefna fyrir sérsambönd og golfvelli í landinu. Hann hefur sömuleiðis verið stundakennari í HR undanfarin ár.

„Ég er virkilega spenntur fyrir verkefninu sem framundan er. Stækkun Selfoss hefur í för með sér áskoranir fyrir knattspyrnudeildina að fylgja eftir stækkuninni sem væntanlega verður á deildinni. Selfoss hefur alla burði til að verða ákveðið veldi í knattspyrnu, Selfoss á að vera ákjósanlegur staður fyrir framtíðarknattspyrnufólk landsins að verða til,” segir Fannar um nýja starfið.

„Aðstaðan er til fyrirmyndar og á aðeins eftir að batna með hverju árinu. Meistaraflokkarnir eru og verða stór hluti deildarinnar og þrátt fyrir gott gengi er hægt að gera betur og það ætti að vera krafa allra Selfyssinga að eiga kvenna- og karlalið í fremstu röð. Fyrir mína parta, sem verðandi Selfyssingur, þá vill ég eiga þess kost að sjá bestu lið landsins í kvenna- og karlaflokki mæta á Selfoss og að börnin mín sjái sínar fyrirmyndir í fremstu röð á landinu,” segir Fannar ennfremur.

Fannar Karvel. Ljósmynd/Arnar Helgi Magnússon
Fyrri greinStyrkleikarnir – allir saman nú
Næsta greinHamar-Þór með bakið upp við vegg