Fannar Ingi undir pari á lokahringnum

Fannar Ingi Steingrímsson úr Golfklúbbi Hveragerðis stóð sig frábærlega á Teen World Championship mótinu sem lauk í gær. Hann lék lokahringinn á 71 höggi eða einu höggi undir pari og hafnaði í 5. sæti í mótinu af um 130 keppendum.

Fannar leikur í flokki drengja 14 ára og var að leika mjög vel. Hann var best kominn þremur höggum undir pari á hringnum eftir 10 holur. Leikið var á National vellinum á Pinehurst golfsvæðinu í Norður-Karólínu og voru margir sterkir keppendur með. Fannar var mjög öruggur af teig og hefði jafnvel getað náð ennþá lengra ef púttin hefðu dottið.

Með þessum frábæra árangri þá tryggði Fannar sér keppnisrétt í Sveitakeppni á milli Bandaríkjanna og Alþjóðaúrvalsins. Fannar mun auðvitað leika með Alþjóðaúrvalinu og fer sú keppni fram í dag. Leikið verður á Pinehurst No. 2 vellinum sem mun hýsa Opna bandaríska meistaramótið á næsta ári. Það verður því mikil upplifun fyrir Fannar að keppa í mótinu. Mikið er gert úr mótinu en allir keppendur fá merktan golfpoka með sínu nafni. Fjórir efstu strákarnir og tvær efstu stelpurnar í hverjum flokki fengu sæti í liðinu.

Fannar er búinn að vera á keppnisferðalagi um Bandaríkin á síðustu tveimur vikum. Hann er búinn að leika 15 golfhringi á 16 dögum.

Fyrri greinGóður gangur í stígaviðhaldi á Þórsmörk
Næsta greinÞrír Íslandsmeistaratitlar í húsi