Fannar fór holu í höggi og setti vallarmet á Hellu

Hvergerðingurinn Fannar Ingi Steingrímsson var maður dagsins á seinni keppnisdegi Íslandsbankamótaraðarinnar í golfi sem lauk á Strandarvelli á Hellu í gær.

Fannar Ingi setti vallarmet þegar hann lék 18 holurnar á 9 höggum undir pari, 61 höggi og sigraði í flokki 15-16 ára drengja. Fannar lék frábært golf og fór m.a. holu í höggi á 8. braut.

„Ég var aldrei að hugsa um vallarmet eða skorið yfirleitt en það var auðvitað gaman að fara holu í höggi,“ sagði Fannar í samtali við kylfingur.is eftir þennan ótrúlega golfhring sem er líklegast einn besti ef ekki besti golfhringur í sögu mótaraðanna hjá Golfsambandi Íslands.

Auk „arnarins“ sem var auðvitað holan í högginu, fékk Fannar 8 fugla og einn skolla þegar hann þurfti að taka víti. Fannar lék fyrri hringinn í mótinu á 6 yfir pari og bætti sig því um 15 högg á milli hringja en hann var nýkominn frá alþjóðlegu unglingamóti í Skotlandi þar sem hann stóð sig mjög vel og endaði í 6. sæti, höggi frá 2. sæti.

„Ég var þreyttur og aðstæður voru gjörólíkar þar sem flatirnar voru svo miklu hraðari í Skotlandi. Eftir smá hvíld og aðlögun að flötunum á Hellu var ég kominn í góðan gír,“ sagði kappinn eftir hringinn.

Fannar endaði á 3 undir pari í heildina og sigraði í sínum flokki.

Fyrri greinSamvinna og sýning listnema á Sólheimum
Næsta greinFimm útköll á einni viku