Fallið blasir við Hamri

Kvennalið Hamars tapaði 71-77 gegn Fjölni í uppgjöri botnliðanna í Iceland Express-deildinni í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Fátt bendir til annars en að Hamar falli niður í 1. deild þegar tvær umferðir eru eftir.

Með sigrinum náði Fjölnir fjögurra stiga forskoti á Hamar sem situr í botnsætinu. Það þýðir að Hamar þarf að sigra Val og Hauka í síðustu tveimur umferðunum og treysta á að Fjölnir tapi sínum viðureignum, gegn Njarðvík og Snæfelli. Hamar og Fjölnir hafa mæst fjórum sinnum í deildinni í vetur og bæði lið unnið tvo leiki en Hamar hefur betra stigahlutfall úr leikjunum. Ef Hamar nær því í stigin fjögur sem enn eru í boði, og jafnar Fjölni að stigum, mun Hamar halda sæti sínu í deildinni.

Leikurinn í kvöld var kaflaskiptur en gestirnir voru mun ákveðnari í upphafi og náðu góðu forskoti í 1. leikhluta, 4-16. Hamar minnkaði muninn í sjö stig áður en 1. leikhluta lauk og svaraði svo enn frekar fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var í 34-39 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var jafn en þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 48-51. Hamar komst yfir í upphafi 4. leikhluta og hélt forystunni þangað til rúm mínúta var eftir og Fjölnir komst í 69-70. Ekkert gekk upp hjá Hamri á lokamínútunni og Fjölnir skoraði fimm stig í röð og komst í 69-75. Þá var tíminn of lítill fyrir Hamar en Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði síðustu körfu liðsins þegar 11 sekúndur voru eftir og breytti stöðunni í 71-75. Lokaorðið áttu Fjölniskonur á vítalínunni.

Fanney Guðmundsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 19 stig. Katherine Graham kom næst henni með 18 stig og 10 fráköst og Marín Laufey átti mjög góðan leik með 16 stig og 15 fráköst. Samantha Murphy og Íris Ásgeirsdóttir skoruðu báðar 7 stig og Álfhildur Þorsteinsdóttir 4.

Hamar mætir Val á útivelli næstkomandi miðvikudag kl. 19:15.