Færin fóru forgörðum

Selfyssingum varð lítið ágengt upp við mark HK í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti HK í Kórinn í Kópavogi í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Þar unnu HK-ingar fullstóran 4-1 sigur.

Leikurinn var í járnum framan af, nokkuð opinn og bæði lið gerðu sig líkleg. Heimamenn voru fyrri til að skora, þeir komust yfir á 24. mínútu og bættu við öðru marki tíu mínútum síðar. Selfyssingar fengu nokkur prýðileg færi en gekk illa að hitta á markið.

Staðan var 2-0 í hálfleik og vopnin voru síðan slegin endanlega úr höndunum á Selfyssingum þegar HK skoraði sitt þriðja mark strax á 5. mínútu síðari hálfleiks. Þeir vínrauðu lögðu þó ekki árar í bát, þeir leituðu ýmissa leiða upp völlinn en fundu ekki netmöskvana hjá HK. Selfoss gerði þrefalda skiptingu á 75. mínútu og varamennirnir Nacho Gil og Sesar Örn Harðarson gerðu sig fljótlega líklega.

Á 84. mínútu minnkaði Sesar muninn með laglegu skoti utan teigs og strax í næstu sókn fékk Nacho dauðafæri. En fótboltinn er grimmur og í stað þess að minnka muninn í eitt mark fengu Selfyssingar mark í andlitið í næstu sókn HK. Heimamenn gerðu þar endanlega út um leikinn og lokatölur urðu 4-1.

Selfyssingar sitja í 11. sæti deildarinnar með 3 stig en HK fór upp í 3. sætið með 11 stig.

Fyrri greinHamar/Þór heldur sæti sínu í úrvalsdeildinni
Næsta greinÆgir vann toppslaginn