Knattspyrnufélag Árborgar er úr leik í Fótbolti.net-bikarnum, bikarkeppni neðrideildarliða, eftir 0-1 tap gegn ÍH í 16-liða úrslitum í framlengdum leik á Selfossi í kvöld.
ÍH byrjaði leikinn af krafti en það voru Árborgarar sem fengu færin og það var ótrúlegt að boltinn færi ekki í netið í fyrri hálfleiknum.
Seinni hálfleikurinn var líka markalaus en leikurinn var galopinn og bráðfjörugur. Árborg átti nokkrar frábærar sóknir og gestirnir voru sömuleiðis mjög ógnandi og áttu skot bæði í stöng og slá.
Staðan eftir 90 mínútur var 0-0 en bæði lið áttu nóg á tanknum fyrir framlenginguna. ÍH braut loksins ísinn á 116. mínútu þegar Atli Hrafnkelsson mætti á nærstöng og skallaði boltann laglega í netið.
Í kjölfarið hófst stórsókn Árborgar á nýjan leik og þeir þjörmuðu verulega að ÍH á lokakaflanum og áttu meðal annars skot í slá en allt kom fyrir ekki og gestirnir úr Hafnarfirði fögnuðu sæti í 8-liða úrslitum.
ÍH verður í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin á morgun ásamt Völsungi, Víkingi Ó, Víði Garði, KFK, KFG, Kára og KFA.