Færin fóru forgörðum gegn toppliðinu

Sesar Örn Harðarson sækir að marki ÍR í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti ÍR í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Gestirnir höfðu betur eftir hörkuleik, þar sem Selfyssingar fóru illa með færin.

Selfyssingar byrjuðu ágætlega í leiknum en fengu klaufalegt mark í andlitið á 19. mínútu. Þeir misstu þá boltann í öftustu línu og ÍR refsaði með marki. Gestirnir voru líklegri í kjölfarið en bæði lið fengu ágæt færi áður en flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var jafn. Robert Blakala markvörður Selfoss hélt sínum mönnum inni í leiknum með góðum vörslum en á hinum enda vallarins voru Selfyssingum ákaflega mislagðir fætur fyrir framan mark ÍR. Það vantaði ekki færin.

Lokatölur urðu 0-1 og ÍR fór aftur á toppinn en Selfoss er áfram í 9. sætinu með 13 stig.

Fyrri greinMælifellssandur ófær vegna vatnavaxta
Næsta greinÆgir eykur forskotið á toppnum