Fá styrk fyrir framúrskarandi árangur

Hamarsmenn fagna bikarmeistaratitlinum fyrr í vetur. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Karlalið Hamars í blaki varð bikarmeistari karla í fyrsta sinn um síðustu helgi eftir 3-0 sigur á Aftureldingu í úrslitaleik.

Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Hamars í boltaíþrótt í fullorðinsflokki á landsvísu frá upphafi og í annað sinn sem lið innan HSK verður bikarmeistari í blaki, en Umf. Laugdæla vann þennan titil árið 1980.

Stjórn Verkefnasjóðs Héraðssambandsins Skarphéðins ákvað af þessu tilefni að veita blakdeild Hamars 400.000 króna styrk úr sjóðnum vegna þessa frábæra árangurs. Í reglugerð um sjóðinn segir að stjórn hans sé heimilt að veita styrki vegna framúrskarandi árangurs einstaklinga og liða, án þess að umsókn hafi borist.

Guðríður Aadnegard, formaður HSK, hitti liðið við komuna í Hveragerði að leik loknum og tilkynnti þessa ákvörðun sjóðsins við mikinn fögnuð viðstaddra.

Fyrri greinLið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sigraði í fjórgangi
Næsta greinUndirbúa hönnun kennslusundlaugar við Sunnulækjarskóla