„Færni, sjálfstraust og sköpunargleði“

Um helgina mun knattspyrnudeild Umf. Selfoss í samstarfi við Coerver Coaching bjóða upp á knattspyrnuskóla Coerver í fyrsta skipti á Selfossi.

Námskeiðið er fyrir alla iðkendur í 3.-6. flokki drengja og stúlkna en Coerver Coaching er æfinga- og kennsluáætlun sem henta öllum aldurshópum, en sérstaklega 8-16 ára.

„Coerver Coaching er hugmyndafræði sem einblínir á að þróa færni einstaklingsins og leikæfingar í smáum hópum,“ segir Heiðar Birnir Torleifsson, þjálfari hjá Coerver á Íslandi. Hann hefur haldið sambærileg námskeið víða um land sem mikil ánægja hefur verið með hjá þátttakendunum.

„Krakkarnir bæta ekki bara færni sína á þessum námskeiðum, heldur einnig sjálfstraust og sköpunargleði, auk þess sem við kennum góðan íþróttaanda og að bera virðingu fyrir leiknum,“ segir Heiðar og bætir við að foreldar muni sjá miklar og skýrar framfarir hjá börnunum sínum.

„Við vinnum þetta af fagmennsku, í öruggu og lærdómsríku umhverfi. Þetta er besta æfinga- og kennsluáætlunin í færni knattspyrnumanna sem völ er á í dag.“

Sem fyrr segir er þetta í fyrsta sinn sem knattspyrnuskóli Coerver kemur á Selfoss og segir Heiðar að útlit sé fyrir skemmtilega helgi með efnilegu knattspyrnufólki.

Fyrri greinSelfyssingum hrósað fyrir uppbyggingarstarf sem aðrir njóta góðs af
Næsta greinFyrsta grænfánanum flaggað