Eyvindur Hrannar leikmaður ársins

Íþróttafélagið Mílan útnefndi Eyvind Hrannar Gunnarsson leikmann ársins á lokahófi félagsins sem haldið var á Hótel Selfossi um síðustu helgi.

Eyvindur Hrannar var lykilmaður hjá Mílan í vetur á fyrsta tímabili félagsins í 1. deild karla í handbolta. Hrannar var auk þess útnefndur varnarmaður ársins.

Stórskyttan Örn Þrastarson var útnefndur sóknarmaður ársins, Árni Felix Gíslason bjartasta vonin og Birgir Örn Harðarson var útnefndur félagi ársins.

Markahæsti leikmaður liðsins var Atli Kristinsson með 127 mörk en mark ársins átti Örn Þrastar þegar hann skoraði með kringlukasti á móti Fjölni.

Sigurþór Þórsson var útnefndur liðsstjóri ársins, Rúnar Hjálmarsson harðasti leikmaðurinn og Ástgeir Rúnar Sigmarsson markmaður ársins.

Guðbjörn Tryggvason fór margverðlaunaður af lokahófinu en hann var valinn bestur í þjöppu auk þess sem hann fékk verðlaun fyrir atvik ársins, eftir að hafa farið hamförum í sömu þjöppu.

Markvörðurinn Bogi Pétur Thorarensen var valinn bestur í fótbolta í upphitun og Leifur Örn Leifsson mesta beljan, en það er sá leikmaður sem meiðist oftast yfir keppnistímabilið.

Fyrri greinDægurlagafélagið syngur fyrir Tönju Kolbrúnu
Næsta greinEinar Árni tekur við Þórsurum