Eyþór Orri íþróttamaður Hrunamanna 2018

Eyþór Orri Árnason ásamt formanni UMFH, Jóhönnu Bríeti Helgadóttir. Ljósmynd/UMFH

Körfuknattleiksmaðurinn Eyþór Orri Árnason var valinn íþróttamaður Ungmennafélags Hrunamanna árið 2018 en valið var tilkynnt á aðalfundi félagsins í síðustu viku.

Eyþór Orri fór fyrir sínum mönnum þegar 9. flokkur karla varð bikarmeistari. Hrunamenn unnu þar sinn fyrsta titil í karlaflokki. Eyþór Orri var maður leiksins,  skoraði 23 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 4 fráköst í bikarúrslitaleiknum gegn Keflavík. 

Eyþór Orri var næst stigahæstur allra leikmanna á Scania Cup í Svíþjóð um páskana þar sem lið hans hafnaði í 5. sæti. Hann var valinn í U15 ára landslið Íslands sumarið 2018 og var fyrirliði liðsins á Copenhagen Invitational í Danmörku. 

Haustið 2018 sendi körfuknattleiksdeildin meistaraflokk aftur til leiks á Íslandsmót og þar hefur Eyþór Orri gegnt hlutverki leikstjórnanda, þrátt fyrir ungan aldur, og verið með stigahæstu leikmönnum liðsins.

Í greinargerð með valinu segir að Eyþór Orri sé mjög jákvæð fyrirmynd yngri leikmanna og hefur verið körfuknattleiksdeildinni hjálpsamur við þjálfun og ýmis sjálfboðastörf sem snúa að deildinni.

Ragnheiður Guðjónsdóttir frjálsíþróttakona og Halla Gunnarsdóttir blakkona voru einnig tilnefndar í valinu um íþróttamann ársins hjá Hrunamönnum.

Fyrri greinBaldur Þór nýr þjálfari Tindastóls
Næsta greinGröfutækni bauð lægst í Smáratúnið