Eyþór áfram með Selfossliðið og Jóna Margrét ráðin aðstoðarþjálfari

Þjálfarateymi Selfoss (f.v.) Ketill, Unnur, Jóna Margrét og Eyþór. Á myndina vantar liðsstjórann Ingu Guðlaugu. Ljósmynd/UMFS

Þjálfarateymi kvennaliðs Selfoss í handbolta er nú fullskipað fyrir komandi átök í vetur. Ásamt Eyþóri Jónssyni þjálfara og Katli Heiðari Haukssyni sjúkraþjálfara bætast við þær Jóna Margrét Ragnarsdóttir sem aðstoðarþjálfari og Unnur Þórisdóttir sem styrtkarþjálfari.

Jóna Margrét er margreynd landsliðskona í handbolta en hún lék á sínum tíma 64 landsleiki og skoraði í þeim 119 mörk. Jóna Margrét lék allan sinn feril með Stjörnunni þar sem hún hampaði bæði Íslands- og bikarmeistaratitlum. Kemur hún með mikla reynslu inn í teymið sem hún mun miðla til yngri leikmanna.

Unnur Þórisdóttir kemur einnig inn í þjálfarateymið og mun halda utan um styrktarþjálfun meistaraflokks kvenna. Unnur er menntaður sjúkraþjálfari og hefur verið Katli sjúkraþjálfara til halds og traust síðustu ár.

Eins og áður sagði verður Eyþór áfram þjálfari meistaraflokks kvenna, Ketill Heiðar sjúkraþjálfari liðsins og Inga Guðlaug Jónsdóttir verður áfram liðsstjóri.

Í tilkynningu frá Selfyssingum lýsir deildin yfir gríðarlegri ánægju með samsetningu þjálfarateymisins enda séu spennandi tímar framundan hjá liðinu.

Fyrri greinStærsta og skemmtilegasta hjólreiðamót landsins um helgina
Næsta greinHimininn er nálægt þér