Eysteinn Fannar Noregsmeistari í kraftlyftingum

Eysteinn Fannar Oddgeirsson. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvergerðingurinn Eysteinn Fannar Oddgeirsson varð um síðustu helgi Noregsmeistari í kraftlyftingum í +120 kg flokki.

Á Noregsmeistaramótinu lyfti Eysteinn 330 kg í hnébeygju, 180 kg í bekkpressu og 310 kg í réttstöðulyftu eða samanlagt 820 kg og fékk 77,23 stig.

Eysteinn, sem er 26 ára, byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir fimm árum en hann býr í Drammen og keppir fyrir DSI, Drammen Styrkeidrettslag. Hann hefur búið í Noregi í 12 ár en byrjaði reyndar að lyfta lóðum í Laugaskarði í Hveragerði á unglingsaldri.

„Ég æfði sund og fótbolta í Hveragerði þegar ég var yngri og byrjaði að lyfta lóðum í sundlauginni í Laugarskarði þegar ég var 14 ára. Ég byrjaði hins vegar að æfa kraftlyftingar hér í Noregi árið 2017,“ segir Eysteinn, sem hefur náð ágætum árangri hingað til og meðal annars fjórum sinnum orðið héraðsmeistari.

„Mótið um síðustu helgi var fyrsta keppnin mín í þessum þyngdarflokki, þannig að ég hef ekki náð neinni bætingu í flokknum ennþá. En ég lyfti þó um 70 kg meira til samans núna heldur en ég gerði eftir að ég fór upp í þyngsta flokkinn,“ segir Eysteinn sem hefur að sjálfsögðu sett sér það markmið að verja Noregsmeistaratitilinn að ári.

„Markmiðið fyrir næstu keppni er að lyfta yfir 920 kg samanlagt og annað markmið er að ná að lyfta 400 kg í hnébeygju einhvern tímann á næstu tveimur árum.“

 

 

Fyrri greinÓskalögin við orgelið
Næsta grein„Áhugaverður bræðingur af þjóðsögum og vísindaskáldskap“