Eyjamenn hefndu fyrir bikartapið

Selfoss tapaði naumlega fyrir ÍBV þegar liðin mættust í 1. deild karla í Vestmannaeyjum í dag. Lokatölur voru 26-25 en Selfyssingar voru yfir á lokamínútunum.

Liðin áttust við í Símabikarnum fyrr í vikunni og þar lönduðu Selfyssingar öruggum sigri eftir góðan endasprett.

ÍBV byrjaði leikinn í dag betur og hafði yfirhöndina lengst af fyrri hálfleik en staðan í leikhléinu var 14-12. Síðari hálfleikur spilaðist svipað, Eyjamenn leiddu en Selfyssingar voru aldrei langt undan.

Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum kom Hörður Másson Selfyssingum yfir, 23-24. Eyjamenn komust yfir aftur, 26-25, og Selfyssingar voru með boltann þegar hálf mínúta var eftir af leiknum. Markvörður Eyjamanna varði hins vegar meistaralega frá Matthíasi Halldórssyni þegar tíu sekúndur voru eftir af leiknum og ÍBV náði að láta klukkuna renna út í kjölfarið.

Hörður Másson var markahæstur Selfyssinga, eins og í bikarleiknum, með 9 mörk, Matthías Örn Halldórsson skoraði 5, Einar Sverrisson 4, Einar Pétur Pétursson 3, Gunnar Ingi Jónsson 2 og þeir Sigurður Már Guðmundsson og Hörður Bjarnarson skoruðu báðir 1 mark.

Selfyssingar réðu ekkert við Nemanja Malovic sem skoraði 17 mörk fyrir ÍBV eða 65% marka liðsins.

Fyrri greinHSK í 5. sæti stigakeppninnar
Næsta greinÖruggt hjá Selfossi gegn botnliðinu