Eyjakonur sterkari í lokin

Selfoss tók á móti ÍBV í Vallaskóla í dag þegar keppni hófst eftir tæplega tveggja mánaða frí í Olís-deild kvenna í handbolta.

ÍBV byrjaði betur í leiknum og leiddi 2-5 þegar tíu mínútur voru liðnar. Selfyssingar náðu hins vegar að jafna, 8-8, og eftir það var jafnræði með liðunum fram að leikhléi. Staðan var 12-14 í hálfleik.

Selfoss jafnaði 18-18 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum sem var jafn lengst af. Munurinn var eitt mark, 23-24, þegar rúmar fimm mínúru voru eftir en Erla Rós Sigmarsdóttir, í marki ÍBV, varði nokkra mikilvæga bolta á lokamínútunum og tryggði sínu liði sigurinn. Lokatölur 24-28.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 11/6 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 4, Dijana Radojevic og Adina Ghidoarca 3, Carmen Palamariu 2 og Margrét Jónsdóttir 1.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 17/1 skot í marki Selfoss og var með 39% markvörslu.

Selfoss er í 7. sæti Olís-deildarinnar með 4 stig en ÍBV er í 5. sæti með 10 stig.

Fyrri greinSveitarstjórn vill rökstuðning fyrir lágu fasteignamati á vindmyllum
Næsta greinBragðið af súrmatnum endurspeglar góða veðráttu síðasta sumar